Færsluflokkur: Bloggar

Að axla ábyrgð í alþjóðasamfélaginu

Í OPINBERRI umræðu og umfjöllun fjölmiðla má oft skilja það sem svo að uppbygging orkufreks iðnaðar á Íslandi undanfarin ár sé mistök, byggist á gamaldags hugsun, þetta sé iðnaður gærdagsins og nær væri að "gera eitthvað annað". Sá eða sú sem lætur þessi orð falla er jafnvel á sama tíma að sötra drykk úr áldós, hjóla um á reiðhjóli eða aka um á bifreið sem er úr áli að mestu eða öllu leyti. Það gleymist oft að ál er algengasta frumefni jarðar og að ál er sá málmur sem mest er notaður af öllum málmum, t.d. í bifreiðar og flugvélar. Vegna lágrar eðlisþyngdar áls verða þessi farartæki léttari ef það er notað og þannig stuðlar notkun áls að minni útblæstri koldíoxíðs og þar með minni áhrifum gróðurhúsalofttegunda. Ál er enda algengasti málmur sem notaður er í vél- og reiðhjól og enginn betri málmur eða betri málmblanda hefur fundist enn til þessara nota, hvað sem framtíðin kann að bera í skauti sér.

Árleg framleiðsla áls er í dag um 30 milljónir tonna á ári. Aukningin er um 4% á ári, eða um 1,2 miljónir tonna á ári, og eru þá Kína og Indland ekki meðtalin. Þessi árlega aukning notkunar áls kallar á að tekin verði í notkun á hverju ári a.m.k. þrjú ný álver eins og verið er að byggja á Reyðarfirði. Á næstu 20 árum þarf því að byggja 60 ný álver af þeirri stærð einhvers staðar í heiminum, það er óhagganleg staðreynd. Það verður gert óháð niðurstöðu kosninga á Íslandi í maí nk. Ef markaðir í Kína og á Indlandi eru taldir með hefur verið rætt um að þessi tala tvöfaldist og að þá þurfi að byggja allt að 120 álver á næstu 20 árum. Hér á Íslandi eigum við ekki orku fyrir þennan fjölda álvera og því verður þetta ekki allt byggt hér, svo mikið er víst, og svo koma auðvitað aðrar ástæður til. Raunhæft er að tala um að hér verði byggð 2–3 "Reyðarfjarðarálver" og "ekki meir" í næstu framtíð.

Ný skýrsla á vegum SÞ um loftslagsbreytingar er í raun að segja að orkufrekur iðnaður á borð við áliðnaðinn ætti allur að byggjast upp þar sem umhverfisvæna orku á borð við vatnsafl og gufu er að fá. Sú skýrsla er ákall til þeirra þjóða sem hafa aðgang að slíkri orku að virkja sem mest til að draga úr orkuframleiðslu með jarðefnaeldsneyti. Þessi skýrsla er því í raun að þrýsta á að þjóðir eins og Ísland, sem hafa mikið af umhverfisvænum orkumöguleikum, axli þá ábyrgð eða tengist alþjóðlegu orkuneti, t.d. um sæstreng, til að við getum tekið fullan þátt og ábyrgð á hinu "alþjóðlega samfélagi" svo tekið sé upp slagorð sem vinsælt er hjá mörgum í dag sem þeytast um heiminn á umhverfisráðstefnur í þotum sem gerðar eru úr áli.

Undirritaður hefur séð á prenti að Íslendingar losi 12 sinnum meira magn á íbúa af gróðurhúsalofttegundum heldur en hver íbúi á Indlandi. Íslendingar ættu því að skammast sín og draga úr loftmengun sinni hvað þetta varðar til að geta talist menn með mönnun. Ég geri þá fastlega ráð fyrir því að sá sem setti þessa samlíkingu á blað telji það líka eðlilegt að 80% íslensku þjóðarinnar búi við samsvarandi afkomu og lífsgæði og 80% indversku þjóðarinnar gerir í stað þess að búa við það öryggi sem hér er í lífsafkomu. Að bera saman útblástur á gróðurhúsalofttegundum á íbúa á Íslandi, Kína og Indlandi er ómálefnaleg umræða og bendir til annaðhvort lítillar þekkingar eða að verið sé að beita óskammfeilnum vísvitandi blekkingum, sem reyndar er of algengt í þeirri ómálefnalegu umhverfisumræðu sem á sér stað hérlendis. Við lifum í "alþjóðasamfélagi" heyrist oft og eigum sem slík að axla ábyrgð. Greinarhöfundur tekur undir þetta.

Við öxlum þá ábyrgð fyrst og fremst með því að nýta okkar umhverfisvænu orkulindir "alþjóðasamfélaginu" og okkur Íslendingum til heilla.

Höfundur er framkvæmdastjóri HRV ehf.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband